Eins og alþjóð er að öllum líkindum vel kunnugt um er ég afburða góður bílstjóri, sumir myndu jafnvel ganga svo langt að fullyrða að í þeim efnum sé ég til einskærrar fyrirmyndar. Er það einkum fullkomið vald mitt á bifreiðinni í hvers konar aðstæðum, hvort sem um er að ræða sól og blíðu, hávaðarok og slagveðursrigningu eða skafrenning og flughálku, sem hefur skotið styrkum stoðum undir þessa einstöku hæfileika mína. Áralöng þjálfun á akstursfærni hjálpar vissulega til, ég hef ekið langar leiðir til og frá vinnu um áratuga skeið. Í þessu samhengi verð ég einnig að taka fram að einstaka smáóhöpp á akstursævinni hafa ALLTAF verið öðrum að kenna, hvort sem ég hef ekið fjölfarnar eða mjög fáfarnar slóðir, jafnvel þegar ég hef verið ein á ferð. Þetta hljómar ótrúlega en er eigi að síður blákaldur og óhagganlegur sannleikurinn, enda er þetta minn pistill og mín saga.
Í ljósi þessara öfundsverðu og óumdeildu hæfileika minna hef ég leyft nánustu fjölskyldu að njóta yfirburða þekkingar minnar á sviði akstursfærni og leiðbeint þeim fúslega um þau atriði sem betur mættu fara í aksturslagi þeirra. Sem dæmi má nefna þá hef ég þróað með mér sjöunda skilningarvitið gagnvart beygjum og skiptir þá engu máli hvort um hægri eða vinstri beygjur er að ræða, þær eru jafnréttháar gagnvart þessu skilningarviti. Ef ég er sjálf undir stýri geri ég að sjálfsögðu viðeigandi ráðstafanir í tíma, hægi vel á bifreiðinni og gef stefnuljós þannig að enginn vafi leiki á því hvað ég hyggist fyrir. Sé ég farþegi í bifreið tel ég það mikilvægt að deila vitneskju minni um yfirvofandi beygjur mjög tímanlega til að viðkomandi ökumaður geti brugðist við með þeim hætti sem mér finnst ásættanlegur. Samtímis finnst mér yfirleitt ágætt að fara nákvæmlega yfir helstu viðbrögð því ég þekki það vel sem kennari í garðyrkju að góðar útskýringar skilja milli feigs og ófeigs, hvort sem um er að ræða grasafræði eða umferðarreglur. Heilt yfir lít ég á það sem samfélagslega skyldu mína að liggja ekki á liði mínu, við erum jú öll almannavarnir og akstur er svo sannarlega eitthvað sem varðar almenning
Einstaka sinnum finnst mér hafa örlað á dálítilli neikvæðni í fjölskyldumeðlimum þegar ég bendi þeim á það sem betur má fara. Þannig fannst mér til dæmis eins og örlitlum skugga hefði verið varpað á ljómandi jákvætt og uppbyggilegt samband mitt við eldri dóttur mína þegar ég fór með henni í æfingarakstur áður en hún tók bílprófið. Henni fundust til að merkja beygjuaðvaranir mínar koma fullsnemma miðað við aðstæður og í einhverjum tilfellum hafði hún á orði að það væri betra að nota inniröddina við svona leiðbeiningar. Sama fannst henni gilda um ábendingar mínar um umferðarljós framundan og skyndilegar breytingar á lit ljósanna, ískyggilega nálægð við gangandi vegfarendur í vegköntum, viðvaranir um ung börn sem líklega létu sér detta það í hug að hoppa fyrirvaralaust út á næstu gangbraut, að ógleymdri þeirri skýlausu kröfur móðurinnar um að fara nægilega hægt yfir, hámarkshraði er ekki eitthvað sem maður verður endilega að fara eftir, það má alveg fara hægar. Að öðru leyti gekk þessi akstur ágætlega fyrir sig hjá okkur en einhverra hluta vegna, þegar ég lít til baka, grunar mig að hún hafi frekar leitað til pabba síns síðustu mánuðina fyrir bílprófið. Þrátt fyrir það er daman orðin fyrirtaks bílstjóri, enda er nú varla annað hægt með svona góða fyrirmynd á heimilinu.
Eiginmaður minn er mjög lánsamur maður. Það er ekki hver sem er sem er svo heppinn að vera alltaf með aðstoðarökumann með sér í bílnum, aðila sem sér fyrir næstu kílómetra í smáatriðum, þekkir hverja holu á veginum, gráðurnar á beygjunum, hallann á öllum hæðum, sér í hendingskasti hversu langt er í næsta bíl og gerir sér far um að miðla öllum þessum upplýsingum í rauntíma, jafnharðan, allt svo ökuferðin gangi betur fyrir sig. Stundum finnst mér eins og hann sé kannski ekki alveg með á nótunum og telji sig vera fullfæran um að stjórna akstrinum hjálparlaust en dags daglega virðist hann taka leiðbeiningunum með jafnaðargeði og hefur ekki um það mörg orð. Hann hefur þó nefnt það að það flokkist sennilega undir kraftaverk að hann komist hjálparlaust á milli staða, án leiðsagnar en hugsanlega gæti verið dálítill hæðnisundirtónn í því. Þess vegna kom hann mér svolítið á óvart um daginn þegar við hjónakornin ætluðum í smá bíltúr á sólríkum og köldum degi. Við höfðum ekki ekið lengi þegar bíllinn skrikaði aðeins til í flughálli beygju og hugsanlega hef ég útskýrt aðeins fyrir eiginmanninum hvers vegna þetta gerðist nema að hann snýr bílnum snarlega við og ekur rakleiðis heim aftur, steinþegjandi og hljóðalaust. Þegar við komum heim eftir um það bil þriggja mínútna bílferð voru ungmeyjarnar okkar að vonum nokkuð undrandi yfir skjótri endurkomu foreldranna og spurðu þær föður sinn hverju sætti. Hann svaraði að bragði: ,,Það varð listrænn ágreiningur um aksturslag!“
Guðríður Helgadóttir, ökusnillingur
1 Ummæli
Þú ættir að fá óskarsverðlaunin fyrir þessa grein Gurrý hef ekki lesið betri grein mér finnst að ökukennarar ættu að láta nemendur lesa hana þetta er sko flott kennslu grein ??⚘ ( ps ég er búin að aka í um 60 ár ? )
Comments are closed.
Add Comment