Kjötsúpan og Heilsuhælið

Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra er einn helsti stuðningsmaður Heilsustofnunar Náttúrulækningafélagsins. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu segir Guðni að það veki „furðu að hjálparstofnun eins og Heilsustofnun skuli vera fjársvelt svo við blasir að starfsemin berst í bökkum.“ Jafnframt skorar Guðni „heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að greiða úr fjárhagsvanda Heilsustofnunar NLFÍ. „Það væri köld kveðja á afmælisári ef ríkisvaldið telur sig þess umkomið að loka dyrum að því húsi sem Jónas Kristjánsson læknir stofnaði með svita og tárum til bjargar sjúkum og öldruðum. Heilsustofnun sem enn gegnir því lykilhlutverki að gefa fólki lífsþrótt sinn og spara ríkinu milljarða útgjöld. Veikur maður á aðeins eina ósk, það er hjálpin sem Heilsuhælið hefur fært fólki í sjötíu ár. Heilsu og betra líf.“

Guðni dvaldi nýverið á Heilsuhælinu í Hveragerði og talaði fyrir því að boðið yrði upp á kjötsúpu á sunnudögum. Hann fékk ýmsa hagyrðinga í lið með sér eins og rakið er í Vísnahorni Morgunblaðsins. Séra Hjálmar Jónsson orti:

Kjötsúpunni móti mæli

magnast slagurinn.

Enginn fær á Heilsuhæli

hrygg og gæruskinn.

Jón Kristjánsson fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins samsinnti þessu:

Það tjóar þar hvorki tuð eða þras

en tíminn er fljótur að líða.

Kosturinn hér er kál og gras

en kjötsúpan verður að bíða.

Jóhannes Sigfússon lagði þetta af mörkum:

Lífsgrös fyrir karla í kör

er kjötsúpan að vonum.

Þeir endurnýja fyrra fjör

og fara að sinna konum.

Á myndinni sjást Guðni Ágústsson og Þórir Haraldsson borða kjötsúpu hjá Jóhanni Helga Hlöðverssyni. Guðni saknaði kjötsúpu eftir sex vikna dvöl á Heilsuhælinu.

Mynd: Jóhann Helgi Hlöðversson

Related posts

Jólamyndin í ár – Jónas Kristjánsson læknir

Heimildarmyndir um langvinnt Covid og ME

Eldri konur líklegri til að fá langvinnt Covid