„Heilsustofnun getur ekki beðið lengur eftir að njóta jafnræðis í framlögum,“ segir Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði í aðsendri grein í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025. Staðfest er að fjárveiting til Heilsustofnunar sé innan við helmingur af því sem aðrir fá fyrir sambærilega þjónustu.
Heilsustofnun fagnar áherslu heilbrigðisráðherra á mikilvægi endurhæfingar og nú er unnið að stefnumótun í endurhæfingu undir forystu ráðherra. Stofnunin getur samt ekki beðið lengur eftir að njóta jafnræðis í framlögum. Heilbrigðisráðherra hafnaði í september tillögu SÍ um hækkun framlaga til Heilsustofnunar en sagði í ræðu á Alþingi 22. september sl. að unnið væri að því að fara yfir málefni Heilsustofnunar og sagði orðrétt: „Þeir hafa ekki fengið greitt eins og þeir ættu að fá.“
Heilsustofnun fagnar þessari yfirlýsingu ráðherra og minnir á að SÍ og Ríkisendurskoðun hafa staðfest að Heilsustofnun hafi fengið innan við helming af þeim greiðslum sem aðrir aðilar hafa fengið fyrir sambærilega þjónustu. Til þess að Heilsustofnun njóti jafnræðis hljóta greiðslur hennar því að verða jafnaðar við aðra og við starfsfólk bíðum spennt eftir að sjá tillögur um það í afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Þingmenn Suðurkjördæmis, bæjarstjórn Hveragerðis og aðrir velunnarar leggjast á þessar árar með okkur og við hljótum að búast við því að jafnræði verði tryggt,“ segir Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði í aðsendri grein í Morgunblaðinu.