Grunnurinn lagður fyrir 100 árum – Grein í Morgunblaðinu

100 ár í dag frá fyrsta almenna málfundi Framfarafélags Skagfirðinga – Á þeim vettvangi kynnti Jónas Kristjánsson læknir stefnu sína í náttúrulækningum – Erindi flutt á Heilsuhælinu í gærkvöldi.

Í Morgunblaðinu í gær birtist áhugaverð grein um frumkvöðlastarf Jónasar Kristjánssonar stofnanda Náttúrulækningafélags Íslands. Hér birtist þessi grein í heild sinni með leyfi höfundar, Björns Jóhanns Björnssonar bjb@mbl.is.

Fram­fara­fé­lag Skag­f­irðinga var stofnað á Hól­um í Hjalta­dal sum­arið 1918 en fyrsti al­menni mál­fund­ur fé­lags­ins var hald­inn í gamla Barna­skóla­hús­inu 7. mars 1919, eða fyr­ir slétt­um 100 árum. Meðal frum­mæl­enda á fund­in­um var Jón­as Kristjáns­son lækn­ir, síðar stofn­andi Nátt­úru­lækn­inga­fé­lags Íslands 1937 og Heilsu­hæl­is­ins í Hvera­gerði árið 1955. Talið er að á vett­vangi Fram­fara­fé­lags­ins hafi hann fyrst komið á fram­færi kenn­ing­um sín­um um nátt­úru­lækn­ing­ar og bætt heilsu­far fólks.
Í til­efni dags­ins var flutt er­indi um Jón­as á Heilsu­hæl­inu í Hvera­gerði í gærkvöldi kl. 20. Dag­skrá­in var öll­um opin en þar sagði Jón Orm­ar Orms­son, fræðimaður og leik­ari, frá Jónasi og Fram­fara­fé­lag­inu.
Jón­as var meðal hvata­manna að stofn­un Fram­fara­fé­lags­ins en boðað var til fund­ar á Hól­um 7. júní 1918. Að því er fram kem­ur í Sögu Sauðár­króks, eft­ir Krist­mund Bjarna­son á Sjáv­ar­borg, voru fund­ar­boðend­ur, auk Jónas­ar, þeir Jón Sig­urðsson á Reyn­istað, Ein­ar Jós­efs­son á Vatns­leysu, Pét­ur Jóns­son í Eyhild­ar­holti og Ólaf­ur Sig­urðsson á Hellu­landi.
Jón­as lækn­ir setti fund­inn en til­gang­ur fund­ar­ins var „að stofna til fé­lags­skap­ar í Skaga­fjarðar­sýslu, sem unnið gæti í sam­ein­ingu að áhuga- og fram­fara­mál­um Skag­f­irðinga og æft menn í sam­vinnu­starf­semi“. Jón­as var kos­inn fyrsti for­seti fé­lags­ins, sem var starf­andi til árs­ins 1938, en ári áður stofnaði Jón­as Nátt­úru­lækn­inga­fé­lag Íslands á Sauðár­króki.

Fræðsla um stefnu og strauma

Meðal mark­miða Fram­fara­fé­lags­ins var að fræða fé­lags­menn og Skag­f­irðinga um „nýj­ar stefn­ur og mál­efni, sem eru of­ar­lega á baugi hjá er­lend­um þjóðum eða hér­lend­is og lík­leg­ar eru til þjóðarnytja,“ eins og seg­ir í lög­um fé­lags­ins. Í upp­hafi voru níu mála­flokk­ar sett­ir á blað í stefnu­skrá fé­lags­ins og þar á meðal voru heil­brigðismál, sem voru Jónasi mjög hug­leik­in.
Stefn­an í heil­brigðismál­um var tvíþætt, í fyrsta lagi að koma upp full­komnu sjúkra­húsi á Sauðár­króki, búnu nýj­ustu tækj­um og búnaði, eins og það var orðað í stefnu­skrá. Í öðru lagi vildi fé­lagið að stuðlað yrði að um­bót­um á húsa­kynn­um al­menn­ings, „með því að leit­ast við að leiðbeina mönn­um í hag­kvæmri húsa­gjörð“.

Rætt um klæðnað í kulda

Þannig kom Jón­as hugðarefn­um sín­um að á vett­vangi Fram­fara­fé­lags­ins en á fundi í mars 1923 flutti hann fyr­ir­lest­ur þar sem hann fyrst kynnti nátt­úru­lækn­inga­stefnu sína sem seinna varð grunn­ur að stofn­un Nátt­úru­lækn­inga­fé­lags­ins. Jón­as hafði þá skömmu áður dvalið um tíma á heilsu­hæli í Battle Creek í Banda­ríkj­un­um sem kennt var við John Har­vey Kellogg, bróður WK Kellogg, stofn­anda sam­nefnds fram­leiðanda morgun­korns.

En víkj­um að mál­fundi Fram­fara­fé­lags­ins fyr­ir slétt­um 100 árum. Á dag­skrá fund­ar­ins voru tvö mál, ann­ars veg­ar klæðnaður manna og hins veg­ar fóður­mál og sam­eig­in­leg kaup á fóður­bæti. Jón­as var með fram­sögu um klæðnaðinn en þorri Íslend­inga hafði þá árið áður þraukað af frosta­vet­ur­inn mikla 1918. Gríp­um aðeins niður í fund­ar­gerðina frá 7. mars 1919: „Jón­as Kristjáns­son lækn­ir skýrði mjög ít­ar­lega frá því hverja þýðingu klæðnaður­inn hefði fyr­ir heil­brigði lík­am­ans, einkum þó í kald­ari lönd­um, þar sem út­guf­un­in væri svo miklu meiri en hitafram­leiðsla lík­am­ans. Aðal­hlut­verk klæðnaðar­ins væri því það, að halda út­guf­un­inni í jafn­vægi og þess vegna væri ekki sama úr hvaða efni hann væri. Bezt væru þau efni til fata sem leiddu illa hita en hefðu þó gisna möskva svo loftið gæti streymt í gegn­um þau, og sömu­leiðis sogið í sig svita úr hör­und­inu. Helzt þyrfti að vera hreint og hlýtt loft milli fat­anna og lík­am­ans. Holl­ast væri fyr­ir erfiðis­menn að sofa eigi í vinnu­föt­um vegna þess að hætt væri við (að) möskv­ar þeirra væru full­ir með svita og önn­ur óhrein­indi sem vörnuðu um of önd­un og út­guf­un lík­am­ans. Af sömu ástæðum skyldi fólk klæðast mis­mun­andi fatnaði eft­ir árstíðum.“
Sam­kvæmt fund­ar­gerðinni rakti Jón­as hvaða efni teld­ust henta. Þannig taldi hann að bóm­ull, hör og silki væru ekki góður nærfatnaður, og að loðskinn og vatns­dúk­ar væru óhent­ug fata­efni.
Hins veg­ar mælti Jón­as með ís­lensku ull­inni og hvatti til þess að komið yrði á fót tóvinnu og kemb­ings­vél­um í hverri sýslu, til að koma í veg fyr­ir að ís­lenska ull­in væri flutt úr landi óunn­in. Einnig lagði hann til að spuna­vél­ar ættu að vera til á hverju heim­ili.
Að lok­inni fram­sögu Jónas­ar urðu tölu­verðar umræður og vaknaði áhugi á að koma upp tóvinnu og kemb­ings­vél­um í Skagaf­irði.

Stofnaði fleiri fé­lög

Jón­as var héraðslækn­ir í Skagaf­irði í 27 ár, eða frá 1911 til 1938. Hann stofnaði ekki aðeins Fram­fara­fé­lagið og Nátt­úru­lækn­inga­fé­lagið held­ur einnig skáta­fé­lagið And­vara árið 1922 og 1929 var hann frum­kvöðull að stofn­un Tób­aks­bind­ind­is­fé­lags, sem er talið vera hið fyrsta hér á landi.
Þá eru 100 ár liðin um þess­ar mund­ir frá stofn­un Heim­il­isiðnaðarfé­lags Sauðár­króks en meðal stofn­enda var eig­in­kona Jónas­ar, Hans­ína Bene­dikts­dótt­ir. Þau hjón­in fluttu til Reykja­vík­ur 1938, Hans­ína lést 10 árum síðar, en frá stofn­un Heilsu­hæl­is­ins í Hvera­gerði 1955 dvaldi Jón­as þar fimm síðustu ævi­ár­in en hann lést árið 1960.
Frum­kvöðla­starfs Jónas­ar í heil­brigðismál­um var minnst árið 2007 með því að vígja minn­is­varða á lóð Sjúkra­húss­ins á Sauðár­króki, sem hannaðir voru af Guðbrandi Ægi Ásbjörns­syni mynd­list­ar­manni.

Pre­dikaði allt um hægðir, harðlíf­iseitrun og græn­met­isát

Jón­as Kristjáns­son fór snemma að berj­ast fyr­ir heilsu og vellíðan fólks hvar sem hann kom og fór. „Hann var sí­fellt á þönum, út um sveit­ir yfir vötn og veg­leys­ur, úr hús­um og í, á spít­al­ann og af, upp spít­alatröpp­urn­ar og niður. Næst­um alltaf með tösk­una í hend­inni. Hljóp við fót á hröðu tölti. Maður sá hann aldrei ganga.“
Þannig er Jónasi lýst af Birni Jóns­syni lækni, sem gaf út æskuminn­ing­ar sín­ar árið 1989, Glamp­ar á götu – Brell­ur og bernskuminn­ing­ar Bjössa bomm.
Björn lýsti einnig vaxt­ar­lagi og skap­gerð Jónas­ar: „Meðalmaður á hæð en all­vænn um herðar. Hann var hvat­ur í hreyf­ing­um og ör í skapi. Yf­ir­leitt frem­ur al­vöru­gef­inn. Hon­um lá held­ur lágt róm­ur og rödd­in dá­lítið rám. Hann var fáorður en skýr í máli þó að hann talaði ekki með mikl­um áhersl­um. Hann hikaði aldrei við að segja álit sitt hvort sem fólki líkaði bet­ur eða verr, en án allr­ar ill­skeytni.“
Áhersl­ur Jónas­ar í ráðlegg­ing­um um mataræði sköruðust mikið við áhersl­ur í fæði Íslend­inga á þess­um árum. Gef­um Bjössa bomm orðið: „Jón­as pre­dikaði allt um hægðir og harðlíf­iseitrun, græn­met­isát, bran og þorska­lýsi (sem hafði raun­ar verið troðið ofan í mig frá blautu barns­beini fyr­ir at­beina hans). Hætta við kjötát og jafn­vel fisk!? Og öllu frem­ur allt slát­ur og blóðmör. Þetta gat alls ekki staðist. Og hægðir þris­var á dag!“

Ein­um skjól­stæðinga Jónas­ar þótti nóg um ráðleggin­ar hans um hægðir og orti:
Jón­as lækn­ir ætti í
eig­in barm að líta.
Ætli hann mundi una því
alltaf að vera að skíta?

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi