Fyrirlestur Jónasar læknis Kristjánssonar um lifnaðarhætti og heilsufar fluttur 10. mars 1923. Fyrri hluti.

Fyrirlestur Jónasar læknis Kristjánssonar um lifnaðarhætti og heilsufar, fluttur 10. mars 1923

Það er oft talað um hinar miklu framfarir í heiminum á hinum síðustu ára-tugum. Sumum efnishyggjumönnum finnst svo mikið til um þær, að það lítur út fyrir að þeir telji að mannsandinn hafi kafað til grunns öll úthöf tilverunnar, og skýrt og skilið allt sem þar er. Þeim finnst mannkynið vera á rjettri leið til þess að ná bezta stigi sannrar menningar, og að sú kynslóð sem nú lifir, standi í öllu tilliti feti framar en forfeðurnir.
Því skal nú ekki neitað hjer, að nokkuð af þessu getur átt sjer stað, en eitt mælir þó á móti því, að þetta sje að öllu leyti rjett, og að eitthvað sje bogið við menningu nútímans, og það er: Að eftir því sem þessi svokallaða menning og þekking vex, því kvillasamara og óhraustara verður mannkynið. Sjúkdómar og kvillar hafa að sjálfsögðu verið förunautar mannkynsins frá fyrstu tímum, og eru það enn þann dag í dag, þó að læknisfræðinni hafi tekist að stemma stigu fyrir ýmsum skæðum sóttum, sem áður herjuðu löndin, og hefta göngu þeirra; svo sem svarta dauða, bóluveiki o.fl. sjúkdóma. Þó er engu líkara en að upp komi tveir nýir kvillar fyrir hvern einn sem viðnám er veitt. Það minnir á orminn í Lernuvatni. Þessi óvættur hafði níu höfuð og uxu jafnan tvö er eitt var af höggvið. Heraklesi, hinni grísku þjóðhetju, var falið að vinna á þessari ófreskju, og tókst það með þeim hætti, að hann sveið fyrir strjúpann með logandi eikarstofnum.

Læknunum tekst sýnu lakar með að vinna á sjúkdómum þeim, sem þjá mannkynið jafnt og þjett. Læknum fjölgar ár frá ári, sjúkrahús og heilsuhæli eru reist fyrir óhemju fje í hverju landi, bætt við þau árlega og þau stækkuð, og þó er sífellt skortur á þeim. Það er einlægt fremur sókn en vörn af hendi sjúkdómanna og læknarnir eiga sífellt í vök að verjast, þó þeir einstöku sinnum vinni bráðabirgða sigur.
Hvíti dauðinn fer sigurför um heiminn og gjörir fjölda af ungu fólki ósjálfbjarga um skeið og leggur það síðan í gröfina. Krabbameinið vinnur stöðugt á, og fleiri og fleiri verða með ári hverju herfang þess. Í Bandaríkjunum í Ameríku, er talið, að það vaxi um allt að því 3% á ári hverju, síðustu árin. Nýir sjúkdómar bætast við sem vart þekktust áður, svo sem sykursýki og aðrir fleiri sjúkdómar sem stafa af truflun á eðlilegum efnaskiftum í líkama mannsins.
Í Bandaríkjunum í Ameríku er það talið víst að að minnsta kosti 1 af hverjum 200 mönnum hafi sykursýki. En þó eru meltingarkvillarnir að líkindum nú orðnir tíðastir allra kvilla, svo sem magasár, garnabólga, ristilbólga og botnlangabólga. Og að síðustu má telja geðveika fólkið, því fjölgar svo óðum, að það eitt hlýtur að vekja alla hugsandi menn til alvarlegrar íhugunar um það, hvernig framtíð mannkynsins muni verða í ekki mjög fjarlægri framtíð. Í Bandaríkjunum í Ameríku telst svo til, að geðveikum mönnum hafi fjölgað um 300% á síðustu 50 árum.

Aðeins þessi tegund sjúkdóma er í öllum löndum hins menntaða heims orðin slík byrði, að það er fjármálamönnum hið alvarlegasta áhyggjuefni. Það fækkar með ári hverju, í hinum menntaða heimi, þeim mönnum sem ná háum aldri. Þó meðalaldur manna hafi hækkað í flestum löndum, þá stafar það af því, að minna deyr af ungbörnum, og það er ein af syndum læknanna, ef svo mætti að orði kveða, að þeir halda lífinu í börnum, sem eru vesalingar frá fæðingu, svo þau komast upp og auka kyn sitt. Það geta tæplega talist kynbætur að því. Áður dóu þessir vesalingar drottni sínum.
En þó er þetta ekki aðalorsökin til aukinna sjúkdóma. Læknum yfirleitt nú á tímum hættir við því, nær því ætíð, að leita að orsökinni til sjúkdóma í hinni eða annarri tegund baktería eða sýkla. Sýklar þar og sýklar hjer og sýklar alstaðar. Við lifum á sýklaöld. Læknum hættir oft við því að stara á eitt einstakt og rekja allar orsakir þaðan, og nú á tímum eru það sýklarnir sem orsaka alla sjúkdóma. Það neitar t.d. enginn því, að berklaveiki orsakist af smitun með berklagerlum, en hjer kemur fleira til greina. Heilbrigður og hraustur líkami getur varið sig berklaveikinni, en ef líkaminn veiklast af einhverjum ástæðum, t.d. því að ólag kemst á efnaskifti líkamans og meltingu, hin eðlilega samsetning blóðsins fer úr skorðum sökum skorts á svefni og hvíld, eða að skortur er á bætiefnum (vitaminum), sölt-un og járni í fæðunni, eða að maður eitrar líkama sinn með alkoholi eða tóbaki, þá getur líkami manna auðveldlega orðið herfang berklaveikinnar.
Berklagerlana er svo víða að finna, að það er alveg óhugsandi að geta varist berklaveikinni með því aðeins að leitast við að útiloka alla smitun, ef líkami manna er veiklaður með óheilbrigðum lifnaðarháttum. Til þess að vinna sigur á berklaveikinni, hvítadauðanum, sem ógnar mannkyninu með tortímingu, verður jafnframt því að forðast smitun að kappkosta, að hver einstaklingur reyni að halda líkama sínum hraustum og auka mótstöðuafl hans sem mest, með rjettu mataræði, útivist og útivinnu, jafnframt því að forðast allt sem veiklar líkamann og minnkar mótstöðuafl hans.

Lifnaðarhættir manna eru sjaldnast teknir nægilega til greina þegar rætt er um orsakir til sjúkdóma, eins og það sýnist þó liggja beint við. Ef vjer tökum aðeins eitt atriði, einn hinna algengustu kvilla sem til eru, skemmdar tennur, þá er það ómótmælanlegt, að það er kvilli sem árlega fer í vöxt, sjerstaklega í kaupstöðum. Við barnaskoðun síðastliðið haust reyndust 30 af 100 börnum með skemmdar tennur í sveitinni, en hjer í kaupstaðnum nær 80 af hundraði með skemmdar tennur. Áður, fyrir 50 árum, munu tannsjúkdómar hafa verið mjög fágætir, að minnsta kosti á börnum, nú er það jafn fágætt að nokkur nái fullorðinsaldri með heilar tennur. Það þykir nú orðið svo sem allskostar eðlilegt þó að tennur fari að forgörðum á unga aldri. Tannveikin þykir nú orðið sjálfsagður fylgifiskur menningarinnar.
Þetta bendir ótvírætt á það, að eitthvað er bogið við menningu nútímans, eitthvað athugavert og óheppilegt við okkar nútíðarlifnaðarháttu. Jeg hefi heyrt lækna halda því fram að tannskemmdir orsakist af sýklum eða gerlum, en það mun ekki reynast rjett, heldur stafa þær aðallega af óheppilegri fæðu. Herve, ameríkanskur læknir og vísindamaður, heldur því fram, að tannskemmdir sjeu ekki sjúkdómar út af fyrir sig, heldur sjeu þær samfara veiklun í öllum líkamanum og orsakist af skorti af kalki og járni í fæðunni, eða með öðrum orðum skorti á bætiefnum (vítamina) sem ein geta birgt líkamann af þessum efnum, og komi skortur á þessum efnum því til leiðar, að truflun verði á kalkmeltingu líkamans, þannig að tennur missi kalk sitt og verði þarafleiðandi linar og hættara við skemmdum en ella. Hann segir að Eskimóar hafi engar tannskemmdir, og fái þann kvilla ekki fyrr en þeir semja sig að siðum hinna svo kölluðu menningarþjóða í mataræði.
Ennfremur segir hann að íbúar Helluskaga (Labrador) hafi áður haft sterkar tennur, en nú lifi þeir að miklu leyti á brauði og tei og kenni síðan mjög á tannveikinni. Háskotar hafa sterkar tennur, en þegar þeir fara að semja sig að siðum borgarbúa í mataræði skemmast tennur þeirra mjög fljótt. Það má segja svipað um tannveikina og hryggskekkjuna í skólabörnum. Í barnaskólum utanlands er talið að 10. hvert barn hafi hryggskekkju. Hjer á landi er farið að bera talsvert á henni, sjerstaklega í kaupstöðum, og auðvitað er orsökin að miklu leyti hin sama og með tannveikina.

Þekkingin hefur vaxið á heilbrigði og sjúkdómum hina síðustu áratugina, menn lifa í betri húsakynnum, hafa minna erfiði og meiri hvíldir en áður, samt fjölgar sjúkdómum og fleiri veikjast en áður. Það er áreiðanlegt þó ekki verði það sannað með tölum. Margir kunna að halda því fram, að sjúkdómarnir sem nú leggja fólkið í rúmið og deyða það, hafi áður verið til en ekki þekkst vegna skorts á læknisþekkingu, en því fer fjarri að svo sje. Botnlangabólga til dæmis að taka var annaðhvort alls ekki til áður, segjum fyrir 1-2 hundruð árum, eða mjög fágæt. Hún kemur fyrst verulega í ljós fyrir 30-50 árum, sama má segja um tæringuna, krabbameinin og fleiri sjúkdóma.

Manni verður ósjálfrátt að spyrja með þjóðskáldinu okkar: „Hvaðan stafar öll sú þraut, hver er sökin, hvar er svarið? og svarið finnst mjer liggja opið fyrir eins og opin bók“. Vjer lifum ekki samkvæmt lögmáli lífsins. Náttúran móðir vor er strangur dómari en þó rjettlát. Hún hegnir fyrir drýgðar syndir, fyrst og fremst þeim sem þær drýgja, en því miður líka á afkvæmum þeirra sem sekir eru orðnir. Það má oft þekkja úr börn drykkjumanna og þeirra sem fengið hafa suma kynferðissjúkdóma.
Stöku læknar úti í heimi hafa fengið augun opin fyrir þessu og hafa gjörst hrópandi rödd í eyðimörku og eyðileggingu nútímamenningarinnar og prjedikað afturhvarfið. En þeir eru því miður of fáir og raddir þeirra ekki nógu háværar til þess að verða heyrðar af fjöldanum. Það þarf líka mikið átak, hreint heillar aldar átak til þess að hverfa frá tískunni sem lokkar, seiðir út á hinn breiða veg glötunarinnar, þeirrar glötunar að gjöra hinn hvíta kynflokk fyrst að andlegum og líkamlegum vesalingum, og deyja síðan út af jörðunni. Það er einmitt hlutverk læknanna, og það er háleitt hlutverk að leiða fólkið á rjetta braut og benda á að hverju leyti það brjóti í bága við lögmál lífsins, og hvernig það eigi að lifa til þess að verða farsælt, til þess að lifa og deyja heilbrigt, en það er heilbrigt líf að verða aldrei veikur og heilbrigður dauði að deyja í hárri elli.
En því fer fjarri að læknisfræðin sje komin á svo hátt stig ennþá í heiminum. Velmenntaðir bændur vita upp á hár hvernig þeir eiga að fóðra kýrnar sínar til að fá sem mesta mjólk og hvernig þeir eiga að fóðra grísi sína og hesta til þess að þeir þrífist sem best og sjeu sem hraustastir og heilsubestir, en læknarnir vita ekki einu sinni hvernig þeir eiga að lifa sjálfir til þess að halda góðri heilsu, og því síður hvernig fólkið á að lifa og hvað það á að leggja sjer til munns til þess að halda líkama sínum hraustum.
Það fer að nálgast 50 árin sem jeg man aftur í tímann, og jeg fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að heilsufarið var miklu betra og fólkið miklu hraustara þegar jeg man fyrst eftir heldur en nú og mjer verður því að eigna að nokkru leyti breyttum lifnaðarháttum heilsuleysið í fólkinu og aukna sjúkdóma.

Jeg vil því í stuttu máli reyna að gjöra grein fyrir því, að hverju leyti lifnaðarhættir okkar Íslendinga hafa breyst frá því sem áður var. Nákvæmt getur það ekki orðið, það leyfir ekki tíminn í stuttum fyrirlestri, en jeg gríp niður í því helsta. Jeg tel þá fyrst húsakynni. Þau voru áður miklu ljelegri almennt en nú gjörast, þau voru áður miklu loftverri, kaldari og sennilega oft meiri skortur á þrifnaði en nú tíðkast. Þó voru menn hraustari þá, ekki þess vegna en þrátt fyrir það. Fatnaður. Menn klæddust þá hlýrri fötum, fötum sem eingöngu voru unnin úr íslenskri ull og þess vegna hlý og skjólgóð og hentug fyrir okkar kalda loftslag. Að vísu hefur kvenfólk þá að líkindum ekki skorist setgeirabrókum fremur en á dögum Guðrúnar Ósvífursdóttur og hafa ef til vill einhverjir kvensjúkdómar stafað af því, þó ekki væri haft hátt um það. Nú aftur á móti klæðast flestar konur fötum úr útlendu skjóllitlu efni, með bera handleggi og brjóst, og þó þær skerist setgeirabrókum, þá ganga þær að minnsta kosti í kaupstöðum í örþunnum silki- eða bómullarsokkum með bláa fætur af kulda, marða af skóþrengslum og skekkta af hælaháum skóm.
Jeg er ekki í neinum vafa um það, að mörg ung stúlkan leggst í gröfina fyrir aldur fram vegna nútíðarklæðnaðarins, en aðaláhersluna legg jeg á breytt mataræði, og þar tel jeg liggja aðalorsökina til hins mikla böls, óhraustleikans í yngri kynslóðinni.

Fyrir 40-50 árum mátti svo heita að til voru nærfellt engir stórir bæir eða kaupstaðir hjer á landi, jafnvel ekki mælt á okkar mælikvarða, að minnsta kosti ekki svipað því sem nú er orðið. Þjóðin lifði þá mest á landbúskap og í hjáverkum á fiskiveiðum. Sveitamenn fóru þá í ver síðari part vetrar, en stunduðu heyskap á sumrum. Harðfiskur var þá ein aðal fæðutegundin. Fæðið var þá að mestu leyti innlend vara framleidd í landinu sjálfu, tiltölulega lítið flutt inn af kornvöru og nauðalítið af munaðarvöru.
Jeg hefi því miður ekki náð í skýrslur um innfluttar vörur, en þetta mun þó vera rjett í aðaldráttum. Innfluttar vörur voru þá aðallega rúgur ómalaður, eitthvað af bankabyggi og baunum, en miklu minna en nú gjörist. Smjör- og mjólkurframleiðslan hefur áður verið margfalt meiri en nú vegna fráfæranna, sauðamjólkurinnar, sem nú eru lagðar niður. Má sjá það meðal annars á gömlum skýrslum um það, hve mikið var flutt af smjöri til biskupsstólanna, að smjörið hefur þá verið snætt miklum mun meira en nú gjörist. Jeg man eftir því þegar jeg var drengur heima hjá foreldrum mínum, að notkun smjörs var miklu meiri en nú gjörist, og þá var kaupafólki oftast goldið kaupið í smjöri. Skyrgjörð var þá og feikna mikil, og skyrs neytt eingöngu með mjólk, að minnsta kosti meðan það var nýtt, og súrt skyr saman við grauta. Þá var og farið til grasa, tínd fjallagrös og þau höfð í slátur og grauta, sömuleiðis saman við mjöl í brauð. Fæðið var því mest mjólk og skyr, harðfiskur með smjöri og tólg til viðbits, kjöt bæði reykt og saltað og fjallagrös í grauta og slátur. Brauð mun lengi frameftir öldum hafa verið fremur lítið keypt af almenningi. Talað hefi jeg við gamalt fólk, sem þóttist ekki hafa fengið brauð nema á hátíðum og tyllidögum og þótti þá hið mesta sælgæti.
Jeg skal ekki fara út í það hjer, hvernig máltíðum var hagað, en algengast mun það hafa verið að mestu aðeins spónamatur á kvöldin undir svefn. Að vísu mun þjóðin hafa lifað við skort á stundum, að minnsta kosti gengu þá hallæri oft yfir landið, svo að fátækir dóu úr hungri og hungurskvillum, en annars var fólkið hraust og náði háum aldri. Til dæmis um það að fólk varð nokkuð yfir hundrað ára er þessi vísa úr gömlum tíðavísum: „Hundrað ára hreppti klára gleði ellefu skorðuð árin tvenn ein fyrir norðan kerlingenn“. Að vísu er þessarar gömlu konu getið sem einsdæmis, aldur hennar óvanalega hár. Fólkið lifði einföldu óbrotnu lífi, var kvillalítið nema þegar einhverjar farsóttir gengu, þá hrundi fólkið auðvitað niður, því það þekkti ekki rjett tök á sjúkdómum eins og nú.
Minna má á svarta dauðann, sem deyddi allt að því þriðja part af þjóðinni og stóru bóluna sem deyddi tugi þúsunda. Influenzan hefur að líkindum borist stöku sinnum til landsins, líkt og nú, þó sjaldnar hafi verið. Sennilega hefur það verið influenza, sem getið er um í Sturlungu á efri árum Sturlu Þórðarsonar frá Hvammi. Þeir áttust illt við Þorleifur Beiskaldi í Hítardal og Hvamm-Sturla. Sótt mikil gekk í hjeraðinu og frjetti Sturla að Þorleifur var heill og segir: „Allar kvalir munu sparaðar honum til annars heims“. En Þorleifur sagði er hann frjetti að Sturla lá sjúkur: „Illa má hann nú en hálfu verr síðar“. Þá gekk oft taksótt, sem auðvitað hefur verið lungnabólga. Smitandi eða afsýkjandi sóttir gengu þá eins og logi yfir akur án þess að við þær væri ráðið.

Úr þessu er bætt nú, en aftur hefur fjölgað öllum meltingarkvillum, og það svo ótt að furðu gegnir. Mjer virðist, eftir minni reynslu að dæma, að magasárum, ristilbólgu og botnlangabólgu fjölgi ár frá ári. Að þetta sje rjett, og að botnlangabólgan sje orðin talsvert algeng á Íslandi, bendir það á, að 4 af læknum landsins hafa orðið að láta skera úr sjer botnlangann vegna botnlangabólgu. Sumir læknar vilja telja orsökina til botnlangabólgu smitun. Hitt er þó ekki ósennilegra að þessi kvilli sje afleiðing þess hvað menn láta í magann. Jeg tók það fram áðan, að það færi að nálgast 50 árin sem jeg myndi aftur í tímann, og jeg get fullyrt, að það bregður við, markar spor í heilsu-fræðilegu tilliti eftir og um 1890, þegar pöntunarhveitið, sem kallað var overhead hveiti, fór að flytjast til landsins. Þá fóru að koma í ljós meltingarkvillar sem lítið eða ekki bar á áður. Samtímis vex sykureyðslan og kaffinautn að miklum mun. Þá eða um það leyti byrjar innflutningur á poleruðum hrísgrjónum (hrísgrjónum sem hýðið er tekið af), þá vex og rúgmjöls- og bankabyggsnotkunin. Samfara því að skyrgjörð fer þverrandi og er nú svo að segja horfin, nema á stöku stað er búið til skyr úr kúamjólk og borðað nýtt. Súrskyrið hverfur svo að segja alveg með fráfærunum fyrir og um 1890 og alla leið síðan hrakar heilsufari manna. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að hvarf súrskyrsins á mikinn þátt í hnignun heilsufars, sjerstaklega þó maga-kvillum og auðvitað fleiri kvillum, sem jeg áður hefi nefnt. Þettað er heldur ekki svo ólíklegt þegar þetta er athugað nákvæmar. Þjóðin hefur lifað hjer í 1000 ár, á þessu kalda landi þar sem veðráttan er svo ófarastöðug og óblíð. Þjóðin hefur notað eingöngu til fata ullina af fjenu sem lifað hefur í þessu sama loftslagi. Þessi föt voru skjólgóð og vörðu menn fyrir ofkælingu miklu betur en útlendur fatnaður sem gjörður er fyrir hlýrra loftslag.

Þjóðin hefur lifað í þessi 1000 ár mestmegnis á þeim fæðutegundum, sem hjer hafa verið framleiddar, einföldum óbreyttum og kryddlausum mat, og hefur þrifist vel af honum, hafi ekki verið um of mikinn skort að ræða sem ekki varð svo sjaldan. Mjer finnst það svo sem ekki nema eðlilegt, að kenni kvilla þegar þessu er öllu breytt, og við lifum mest á útlendum fæðutegundum, sem alls ekki geta talist góð vara. Þar við bætist allskonar krydd, sem maturinn er eitraður með, krydd sem eitrar meltingarfærin og orsakar í þeim þrota. Öll matargjörð og matreiðsla í landinu hefur á síðari árum verið sniðin eftir útlendri tísku, að minnsta kosti í kaupstöðum, án nokkurrar þekkingar á því hvað er hollt fyrir efnaskipti líkamans og hvað meltingarfærunum er fyrir bestu. Það er ótrúlegustu efnum blandað saman við matinn, sem miða að því einu að svíkja matinn og eitra hann. Þá er og hrein blöskrun að vita til allrar þeirrar kökugerðar sem tíðkast á síðustu áratugum. Það er áreiðanlegt, að þær sætu og krydduðu kökur eiga ekki svo lítinn þátt í þeim mörgu meltingarkvillum sem nú eru algengastir. Af þessum kökum borða menn sig metta eins og væri það vanalegur matur og hann hollur, og neyta ekki annarrar fæðu heila daga á stundum. Gestum og gangandi eru bornar þessar kökur með kaffi seint og snemma. Jeg gæti trúað að kaffið og kökurnar væru plága fyrir fleiri en mig. En svo koma þessar syndir mönnum í koll þó síðar verði. Það er líklega óþarfi að lýsa út í æsar lifnaðarháttum nútíðar hjer á landi, enda ekki tími til; það getur hver og einn sjálfur, en jeg vil í sem fæstum orðum nefna hinar helstu fæðutegundir og geta þess, hverjar eru hollastar og hversvegna, bæði þær sem áður tíðkuðust mest, og svo hinar nú algeng-ustu. En áður en jeg byrja á því, verð jeg að geta um ýms þekkingaratriði á þessu sviði, sem rannsóknir hafa leitt í ljós á síðari árum.

Í flestum fæðutegundum eru frá náttúrunnar hendi til efni sem þekkst hafa fyrst á hinum síðari árum, efni sem eru alveg lífsnauðsynleg fyrir heilsu og þrif bæði manna og dýra. Efni þessi eru á útlendu máli kölluð vitamina. Hefur þetta orð verið þýtt bætiefni, sem er ekki allskostar rjett útlagt og nær ekki merkingu orðsins. Rjettast hefði verið að þýða það alls ekki, heldur að taka orðið óbreytt inn í málið. En ef það er þýtt, þá hefði átt að kalla það lífefni, eða lífgjafaefni, því orðið er myndað af latneska orðinu, vita = líf.
Sólin ein getur framleitt þessi efni, og er þau að finna í allskonar jurtum og jurtagróðri og svo í líkömum dýra og manna. Dýrin búa þau ekki til í líkama sínum, heldur fá þau efni úr jurtafæðu sem þau lifa á, eða þá úr dýralíkömum, sem þau nærast á. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir er þekkingin á þessum efnum af skornum skammti.
Enn sem komið er, er efnafræðileg samsetning þeirra óþekkt. Það lítur svo út, sem hjer geti verið öllu frekar um eiginleika eða eðliseinkenni að ræða en efni. Þrjú af efnum þessum eru þegar þekkt og heyrst hefur nýlega að fjórða efnið væri fundið, en sennilegast er að þau sjeu fleiri til.
Þau eru kölluð eftir stafrófinu A, B, C og D og þar sem ekki hefur ennþá tekist að einangra þau eða leysa þau út úr jurtunum eða dýralíkömunum þekkjast þau aðallega af þeim sjúkdómseinkennum, sem koma í ljós á dýr-um og mönnum, vanti þau algjörlega í fæðuna.
Bætiefnið A veldur eðlilegum beinvexti í ungum dýrum og börnum. Vanti þetta efni í fæðu þeirra, truflast beinvöxturinn. Þau fá beinkröm; bein-in verða lin, það vantar í þau kalk, tennurnar verða gljúpar og kalklitlar og eyðileggjast fljótt. Sömuleiðis kemur í ljós sjúkdómur í taugakerfinu, sem orsakar vissa tegund af augnveiki, jafnvel blindu. Þetta efni er einna mest í mjólk og smjöri, eggjum og þorskalýsi, sömuleiðis í ýmsum káltegundum.
Vanti bætiefnið B í fæðu manna fá þeir sjúkdóm sem kallaður er Beri Beri; sá sjúkdómur er mjög tíður í Kína, Japan og víðar. Sjúkdómur þessi fór fyrst að þekkjast eftir að byrjað var að taka hýðið af hrísgrjónum og neyta þeirra þannig. Bætiefnið B er í flestum korntegundum og geymist undir hýði þeirra. Sjeu korntegundir sviftar hýðinu, eins og hveiti og hrísgrjón, missa þau þetta bætiefni. Líkindi eru til að sjúkdómur sá er Pellagra er kallaður og kemur fyrir sunnan til í Evrópu og Ameríku, stafi af svipuðum orsökum. C vitamin efnið. Skorti þetta efni í fæðuna fá menn sjúkdóm þann sem kallaður er skyrbjúgur. Við hann kannast flestir af því, að tannholdið bólgnar, tennurnar losna, þroti kemur í útlimi, sjerstaklega fætur, samfara verkjum og magnleysi. Heimskautafarar fengu oft skyrbjúg, og dóu úr honum. Skarfakál þótti besta lyf við skyrbjúg, og ef heimskautafarar náðu í það batnaði þeim oftast; en skarfakál er sú jurt, sem vex einna nyrst á hnettinum. Þessvegna náðu þeir helst til skarfakálsins. Nýjar káltegundir eða grængras mundi hafa gjört sama gagn. C bætiefnið kemur fyrir í flestu nýju grænmeti, ávöxtum og ósoðinni mjólk. Yfir höfuð eru bætiefnin í öllum grænum grösum, káltegundum og rótarávöxtum, korntegundum, mjólk og dýralíkömum. Í korntegundum undir hýðinu, eins og áður var tekið fram.
Það er sameiginlegt fyrir öll þessi bætiefni, að þau þola illa mikla upphitun og mikla suðu, t.d. er mjólkin skemmd við Pasteuriseringu. Sömuleiðis þola þau illa að vera söltuð. Af þessu verður sjeð að ekki er einhlítt að taka aðeins tillit til þess hversu ein fæðutegund er nærandi, eða hefur inni að halda margar hitaein-ingar. Menn geta dáið úr hungri þó þeir hafi nægilegt að borða, ef þau efni vantar í fæðuna, sem nauðsynleg eru fyrir lífið, bætiefnin.

Náttúran móðir vor er praktisk og góð húsmóðir, hún matreiðir holla fæðu handa börnum sínum, en þau eru alla jafna svo heimsk að þau skemma matinn, sem þeim er framreiddur, vilja matreiða hann sjálf eftir sínu eigin höfði, en eru ekki svo hyggin sem náttúran.
Maðurinn er alæta í orðsins fyllsta skilningi. Hann leggur sjer til munns allt mögulegt, bæði úr dýra- og jurtaríkinu, þar á meðal ýmislegt, sem engin vera önnur úr dýraríkinu mundi vilja snerta á, t.d. ýmislegt krydd, og breytir sínum fæðutegundum á þann hátt, að þær geta ekki lengur talist fæða, og eru hreint og beint skaðlegar fyrir hin viðkvæmu melt-ingarfæri mannsins, sjerstaklega ef mikils er neytt af þeim.
Sumir halda að náttúran lagi meltingarfæri mannsins eftir þeim skilyrðum sem þeim eru sett, hvernig sem að er farið. En það má of mikið af öllu gjöra. Náttúran hegnir líka fyrir syndirnar. Það er því ekki að furða þó upp komi bæði meltingarkvillar og ýmsar aðrar meinsemdir. Krabbamein er tíðara í maga karla en kvenna og hversvegna? Ætli tóbak og alkohól eigi ekki nokkra sök á því. Það eru því farnar að heyrast háværar raddir frá ýmsum læknum, að þetta dugi ekki lengur ef vel á að fara. Maðurinn verði að hverfa aftur að lifnaðarháttum, sem eru meira í samsemi við lögmál lífsins en nútíðar lifnaðarhættir manna eru nú á tímum. Með þessu er þó alls ekki átt við það, að menn eigi að gjörast hráætur eins og villimenn, heldur að hverfa frá því villimannaæði að eyðileggja og skemma matinn áður en hans er neytt, eins og nú gjörist, og hætta við að neyta eiturs svo sem alkohóls. Það þarf að hverfa að því, að breyta fæðunni aðeins þannig, að hún verði hollari fyrir meltingarfæri og efnaskifti mannsins.
Hin nýjasta vísindalega reynsla verður hjer að gjörast brautryðjandi á þessu sviði. Það dugar ekki að meta gildi fæðunnar aðeins eftir því hversu margar hitaeiningar hver fæðutegund hefur. Það er hægt að breyta einni fæðutegund á þann hátt, að hún hafi mikið hitagildi, margar hitaeiningar, en sje þó óheppileg sem fæða handa mönnum eða jafnvel eitur, t.d. eins og alkohól. Ein fæðutegund getur haft mikið hitagildi sem slík, haft margar hitaeiningar en haft lítið næringargildi vegna þess að hún er tormeltanleg. Ein fæðutegund getur líka verið ljettmeltanleg og haft mikið brennslugildi í líkama mannsins, en verið óheppileg fæðutegund, sjerstaklega ef mikils er neytt af henni, vegna skorts á bætiefnum, svo sem sykur og hýðislaus hrísgrjón og svo mætti lengi telja.

Hinn menntaða heim skortir ennþá tilfinnanlega þekk-ingu á því, hvað hollt er og hvað skaðlegt af því sem menn nærast á, og sjer-staklega eru menn á síðari áratugum komnir út á reglulega refilstigu í þessu tilliti. Það er enginn efi á því, að því meir sem menn fjarlægjast það, að borða af borði náttúrunnar, því hættara er þeim við ýmsum sjúkdómum. Jeg hefi þegar tekið það fram að bætiefni þoli illa mikla eða langvarandi upphitun eða suðu, og þarf því að gæta allrar varúðar með að sjóða matinn ekki of lengi. Allir vita að egg má ekki sjóða nema stutta stund. Ýms ólífræn efni eyðileggja líka bætiefnin, t.d. sölt og ýms gerefni eða lyftiduft sem notað er í kökur.
Jeg hefi tekið það fram, að við skoðun á skólaskyldum börnum í mínu hjeraði hefðu að meðaltali 50% reynst hafa skemmdar tennur í sveitinni en um 80% hjer í kaupstaðnum, og er það næstum eins há tala og í sumum stórborgum menningarlandanna. Þettað bendir á það, að vjer Íslendingar erum á hættulegri braut, því nærri má geta, að öðrum líffærum er líka hætta búin þegar svo áríðandi meltingarfæri sem tennurnar eyðileggjast þegar á unga aldri á börnunum. Jeg gat þess áður, að læknum kæmi ekki saman um það af hverju tannskemmdirnar komi. Telja sumir, að það stafi af úrkynjun mannfólksins, og ef svo er, þá eru það lítil meðmæli með nútíðarmenningunni. Aðrir telja þær stafa af bakteríusmitun og flestir eða allir sóttir, en nýjustu rannsóknir benda til þess og gjöra það sennilegt, að tannskemmdir þegar á unga aldri stafi af skorti á bætiefnum í fæðu ungbarnanna, þ.e. skorti á líf-rænum kalk- og járnsamböndum, og er nokkurnveginn víst að þetta síðast talda er aðalorsökin, þó fleira geti komið til greina, svo sem dimm og köld og rök híbýli. Jeg hefi iðulega skoðað tennur ungbarna hjer í kaupstaðnum, börnum sem fá lítið af mjólk, en nærast mest á brauði, grautum, sykri og þesskonar búðardóti. Þessi börn, 2-4 ára, hafa flestar tennur skemmdar, dökkar, linar eins og skíði og kalklitlar, meira og minna holar. Jeg hefi líka veitt því eftirtekt, að á sumum barnmörgum heimilum í sveitinni, þar sem eru sparsamar og skynsamar húsmæður, hafa öll börnin heilar tennur, mjalla-hvítar, sterkar og kalkríkar. Á þessum heimilum er mjólkin höfð mestmegnis til matar, skyrgjörð og fráfærur, tiltölulega lítið keypt af sykri, hveiti og öðr-um kornmat. Þetta virðist mjer í áttina til þess að einmitt skortur á bætiefn-um orsaki tannveikina og þá auðvitað fleiri kvilla, svo sem hryggskekkju. Það má geta þess í þessu sambandi, að börnin hafa miklu meiri kalkþörf en fullorðnir menn, sökum beinvaxtarins. Þau þurfa meira af kalksamböndum og járni og aðeins bætiefnin geta gefið líkama þeirra þessi efni í nothæfu sambandi. Það er ekki nóg að ein fæðutegund sje næringarrík, hún verður að hafa nægilega mikið af bætiefnum og það á sem rjettustum hlutföllum, ann-ars er hún óholl, og getur verið óholl sje hennar neytt eingöngu og lengi. Jeg skal þá telja upp nokkrar fæðutegundir, sem notaðar eru hjer á landi til manneldis, og leitast við að sýna fram á hve holl hver fyrir sig er.
Mjólkin er ekki aðeins holl, heldur alveg nauðsynleg fæða, sjerstak-lega fyrir börn og unglinga, hjer er átt við nýmjólk. Ungbörnum er móðurmjólkin hollust, vegna þess að hún er hin náttúrlegasta fæða ungbarnanna. Fyrir löngu vissu menn að mjólkin var nauðsynleg fæðutegund, en nýlega hafa rannsóknir leitt það í ljós hversu nauðsynleg hún er. Mjólkin hefur fyrst og fremst í sjer öll þau efni sem líkamanum eru nauðsynleg til vaxtar og viðgangs og það í samböndum sem eru auðmeltanleg. Mjólkin ein inniheldur nægilega mikið af kalkefnum til þess að fullnægja eðlilegum bein-vexti, sjerstaklega vexti barnanna. Það má ef til vill spyrja hversvegna sje ekki hægt að fá nægilega mikið af kalksamböndum úr öðrum fæðutegundum. En rannsóknir hafa leitt það í ljós að til þess að fá jafn mikið af kalkefnum og er í 1 potti mjólkur þarf 2 pund af kjöti eða 100 sneiðar af hveitibrauði eða 800 stór jarðepli. Hið eina sem finna má að mjólkinni er það, að hún hefur ekki nægilega mikið af járnsamböndum þegar hennar er neytt eingöngu til lengdar. Börn sem lengi fram eftir aldri neyta mjólkur eingöngu verða föl og helst til blóðlítil.
Ekkert bætir upp þann járnskort eins og nýtt grænmeti, og þá hrátt grænmeti einna helst, t.d. spínat. Það hefur verið sannað með tilraunum á heilum hópum af börnum, að ef þau fá ekki nægilega mikið af mjólk og grænmeti, þá þroskast kjálkabeinin ekki eðlilega, tennurnar verða ekki eins sterkar og kalkríkar; þær verða lausari í sjer, ekki eins þjett byggðar, holast fljótt og eyðast af tannátu. Allir þurfa á sterkum tönnum að halda, ekki aðeins vegna útlitsins eða fegurðarinnar, heldur og aðallega til að tyggja mat-inn, því tyggingin er fyrsta stig meltingarinnar og það mjög svo nauðsynlegt. Minnsti skammtur fyrir stálpuð börn og unglinga er 1 pottur af mjólk á dag og hálfur pottur fyrir fullorðna. Margir ætla að mjólkin sje dýrari en önnur fæða, en svo er ekki að jafnaði þegar miðað er við notagildi hennar. Allir ættu að kappkosta að hafa sem mest af mjólk til matar, sjerstaklega þó þeir sem börn eiga, vegna þess hve holl fæða mjólk er; ennfremur vegna þess að hún er innlend vara.

Þessvegna þarf að leggja mikið kapp á ræktun landsins, á því byggist aukin mjólkurframleiðsla. Niðursoðin mjólk og mjólkurduft hefur engin bætiefni í sjer og þess-vegna lítið notagildi, og getur ekki komið í stað mjólkur sem fæðutegund, og ætti því að vera hindraður innflutningur á henni með háum tolli. Þegar mjólk er soðin lengi eyðileggjast bætiefnin í henni að mestu leyti, kalkefnin leysast úr því sambandi sem þau eru í í nýmjólkinni og koma ekki líkamanum að haldi til beinvaxtar. Pasteuriseruð mjólk missir nokkuð af sínum bætiefnum, þau skemmast en tapast ekki alveg. Það hefur líka sannast, að ungbörn sem alin eru upp á pasteuriseraðri mjólk eingöngu hættir við að fá beinkröm, sjerstaklega A efnið eyðileggist við upphitunina. Tilraunir á dýrum hafa líka sanna þettað. Það var áður fundið upp á því, að sjóða mjólkina handa ungbörnum af ótta við berklaveikina, því kýr fá oft berklaveiki. Ef mjólkin var soðin lengi, fengu þau börn sem eingöngu nærðust á þessari mjólk, því nær undantekn-ingarlaust beinkröm. Upp á síðkastið er víða erlendis hætt því að gefa börn-um soðna mjólk, en það er haft eftirlit með því að kýrnar sjeu hraustar og að mjólkin sje hrein.
Allvíða í Ameríku þar sem stór kúabú eru, eru kýrnar mjólkaðar með raforku. Með því er meiri trygging fyrir því að mjólkin mengist ekki. Ennfremur er mjólkin skoðuð í smásjá til þess að komast fyrir það, hvort skaðlegir gerlar sjeu í henni. Mjólkin á að vera laus við alla gerla. Taugaveiki, skarlatssótt, barnaveiki og fleiri illkynjaðir kvillar berast oft með mjólk, þessvegna er það aldrei ofbrýnt fyrir fólki að viðhafa hið mesta hreinlæti við mjaltir. Mjólkin hefur í sjer allar tegundir hinna þekktu bætiefna í ríkulegum mæli. Smjörið er ríkt af A bætiefni, og þessvegna hollt bæði vegna þess og líka sökum þess að það er ljettmeltanlegt og hefur mikið hitagildi. Það er sjerstaklega nauðsynlegt fyrir börn og ungt fólk á vaxtaraldri. Áður var smjörs neytt miklu meira en nú gjörist, því þá var smjörframleiðslan miklu meiri vegna fráfæranna, sem þá voru algengar. Sauðasmjörið er ennþá ríkara af bætiefnum en kúasmjörið. Sumarsmjör er líka bætiefnaríkara en vetrarsmjör.
Ekki er ósennilegt að berklaveikinni hafi orðið minna ágengt með út-breiðslu áður, vegna þess að þá var borðað meira af smjöri en nú. Eins og jeg áður hefi tekið fram nær berklaveikin mestri útbreiðslu eftir að smjörnotk-unin minnkar. Hreinlæti við smjörgjörð er afar áríðandi vegna vegna þess sem áður er um getið. Smjörlíki er næstum því eða algjörlega snautt af bætiefnum og hefur þessvegna miklu minna næringargildi og ætti alls ekki að vera notað handa börnum í smjörs stað. Tólg er fátæk eða algjörlega snauð af bætiefnum, og má því segja líkt um hana og smjörlíkið. Þorskalýsi hefur í sjer bætiefni í ríkulegum mæli, þessvegna er það svo hollt öllum. Eins og kunnugt er, þá er kirtlaveikum börnum gefið það sem lyf, og þykir gefast vel, það er einmitt aðallega vegna þess hve mikið er af bætiefnum í því, þess utan er það ljett, ómeltanlegt og góður hitagjafi. Sjálfbrætt lýsi er þó betra en gufubrætt sökum þess að bætiefnin þola illa upphitun og geta skemmst við bræðslu lifrarinnar, sjerstaklega ef hitinn er mikill og varir lengi.
Jeg hefi talað við marga roskna menn, sem hafa sagt mjer frá því, að á unga aldri hafi þeir farið suður til sjóróðra eins og þá var títt, og að þeim hafi aldrei farið jafnmikið fram á stuttum tíma og meðan þeir voru við sjóróðrana, og þökkuðu það því mest, að þeir drukku sjálfbrætt þorskalýsi. Skyrið var ein aðalfæðutegundin til sveita áður, sömuleiðis var það verslunarvara. Í gömlum ritum er talað um sekkjaskyr, það var skyr svo síað að flytja mátti það í pokum. Súrskyrið var áður reglulegur þjóðarrjettur og þess neytt bæði eins útaf fyrir sig með mjólk og saman við graut, og þá oft-ast grasagrautinn. Súrt skyr er sennilega sú hollasta fæða sem unnt er að neyta sjer og hollara en nýtt skyr, vegna þess að mjólkursýrugerlarnir og skyrgerlarnir eyðileggja jarðveginn í þörmunum fyrir skaðlega gerla, sem koma til leiðar þrota og bólgu í slímhúð þarmanna. En sjálfir eru mjólkursýrugerlarnir orðnir manninum óskaðlegir. Eins og flestir hafa heyrt getið um hafa Búlgarar áður búið til skyr á svipaðan hátt og Íslendingar, það kalla þeir jugurtt. Jeg hefi borðað jugurtt. Það er svipað súrmjólk.
Í Búlgaríu hafa menn náð hæstum aldri hjer í Norðurálfu. Í Búlgaríu er talið að 1 af hverjum 1400 manns verði hundrað ára. Hér eru tölur yfir önnur lönd:
Spáni 1:4000
Frakklandi  1:19.000
Englandi  1:200.000
Þýskalandi  1:400.000
Bandaríkjum Ameríku 1:24.000 

Þeim mönnum sem ná háum aldri fækkar stöðugt með ári hverju alstaðar í hinum menntaða heimi, líka hjer. Margir Íslendingar hafa til þessa komist nærri því að verða 100 ára, en það er tæpið, að þeirri kynslóð sem nú er að vaxa upp auðnist að ná þeim aldri. Síðan súrskyrið og súrskyrátið hvarf svo að segja alveg, hafa komið upp meltingarkvillar sem vart þekktust áður, svo sem magasár, garnabólga, ristilbólga og botnlangabólga, og í spor þessara sjúkdóma fylgir krabbameinið. Það er svo komið í öðrum löndum að þessir kvillar, sem jeg hefi nefnt, og aðrir sem eru fylgifiskar þeirra, svo sem nýrnabólga og sjúkdómar í hjarta og æðum, deyða langflest af fólki á roskins aldri eða frá 40-60 ára. Eina af orsökunum til þess má eflaust telja, að hætt er að neyta súrskyrsins, þó það sje ekki eina orsökin heldur hjálpist fleiri að til þess, sem jeg mun síðar nefna. Það mun flest roskið eftirtektarsamt fólk reka augun í það, hversu miklu meira ber á meltingarkvillum nú en áður, og læknarnir vita, að þessir kvillar verða tíðari með ári hverju.

Sumir sætta sig við það og hugga sig með því, að þessir kvillar hafi alltaf verið til, en það nær engri átt að svo sje. Jeg hefi nú fengist við læknisstörf yfir 20 ár, og mjer dylst ekki að meltingarkvillar vaxa hröðum skrefum. Meðan fráfærurnar tíðkuðust, var sýran, þ.e. mysan sem kom úr skyrinu þegar það var síað, höfð til drykkjar við þorsta blönduð vatni, þegar hún var orðin gömul, eða ef hún var ekki til, þá súrt skyr hrært út í vatni. Þessi drykkur var kölluð blanda, súrblanda eða skyrblanda. Þegar jeg var lítill drengur heima hjá foreldrum mínum vorum við systkinin daglega send á engjarnar með blöndu handa engjafólkinu.
Jeg býst við, að það hefði þótt þunnur þrettándi þá, að fá aðeins blátært vatn að drekka. Alla tíð síðan í fornöld hefur sýrublandan verið þjóðardrykkur, sýrunni haldið saman og geymd í stórum keröldum. Að minnsta kosti hefur verið nokkuð stórt kerald á Flugumýri, sem Gissur Þorvaldsson faldi sig í þegar átti að brenna hann inni. Sýran hefur vafalaust haft sömu þýðingu fyrir meltingarfærin og súrskyrið. Það er líka ósannað mál nema að síunin hafi líka ennþá víðtækari áhrif sem heilsubætir líkamans. Af fornsögum má sjá að í fornöld hefur verið talsvert um ostagjörð hjer á Íslandi. Nú mun hún horfin nema gráðaostur sem enginn vill jeta, og má telja það stóra afturför. Vel gjörðir ostar eru efalaust holl fæða.

Frá því sögur fara fyrst af hafa Íslendingar verið miklar kjötætur. Í veislum í fornöld var kjötið aðal rjetturinn, og í blótveislum mest hrossakjöt. Það segir sig sjálft, að hjer hefur verið neytt mikils af kjöti, þar sem aðal atvinnuvegur Íslendinga hefur frá því landið byggðist verið gripa- og sauðfjárrækt, sjerstaklega þegar þess er gætt, að lengi framan af var mjög lítið flutt inn af kornvöru. Þá lifðu landsmenn því nær eingöngu á mjólk og mjólkurafurðum, kjöti og fiski. Lengi frameftir hefur kjötið verið geymt reykt, sennilega hefur verið lítið flutt inn af salti. Nýtt hefur það auðvitað verið á haustin og frameftir vetri, því þá fór slátrun á skepnum, eins og nú, aðallega fram á haustin. Nóvember var kallaður gormánuður. Nýtt kjöt er ríkt af bætiefnum, en við mikla suðu eyðileggjast bætiefnin og kjötið verður þá óhollt.
Það er kunnugt að hundar hafa sterka meltingu, og þrífast vel af kjöti einu saman, sjerstaklega ef það er hrátt; en tilraunir hafa sannað það, að ef hundar eru fóðraðir á útlendu niðursoðnu kjöti eingöngu, veikjast þeir og drepast eftir 2—3 vikur. En það er aðgætandi að mest af útlendu niðursoðnu kjöti er hitað langt upp fyrir suðuhita, og haldið lengi á því hitastigi til þess að drepa alla gerla í því. Að hundrað veikjast og drepast af þessu kjöti stafar af því að öll bæti
efni eyðileggjast í því við svo mikinn hita. Svo mikla þýðingu hafa bætiefnin fyrir öll dýr, ekki aðeins fyrir menn. Sennilega eyðileggjast bætiefnin líka að miklu eða öllu leyti við söltunina. Sjerstaklega við mikla og langvinna söltun.

Fiskur hefur frá því í fornöld verið mikið notaður til fæðu hjer á landi. Þess er getið í fornsögunum að allir firðir hafi verið fullir af fiski, og ár og vötn full af silungi og laxi. Salt fluttist þá lítið eða ekki til landsins, allur fiskur sem ekki var borðaður nýr, var hertur. Harðfiskátið stælti tennurnar, enda þekktist þá ekki tannpína. Tyggingin er nauðsynleg fyrir meltingu magans, hún er hið fyrsta stig meltingarinnar. Allt mælir með því, að harðfiskur sje holl fæða og þrunginn af bætiefnum. Nú er það orðið mjög fátítt að fiskur sjáist á borði utan sveitaheimilanna.

Margir læknar úti í heimi eru jurtaætur, og halda því fram, að menn eigi alls ekki að neyta kjöts eða fiskjar, því þessar fæðutegundir hafi of mikla eggjahvítu, en að eggjahvítuefni rotni í þörmunum og framleiði með rotnuninni eitur, sem verki skaðlega á líkamann og komi því til leiðar, að kalk safnist í æðaveggina, þeir verði lausari í sjer og hætt við að rifna, menn verði gamlir fyrir tímann. Þeir minnast á það, að aparnir, sem eru skyldastir mönnunum af öllum dýrum, sjeu hreinar jurtaætur og bæði tennur og önnur meltingarfæri mannsins bendi á það, að af náttúrunni sje manninum áskapað að nærast á jurtafæðu, en ekki kjöti eða fiski.
Í útlöndum er fjöldi manna jurtaætur (vegetarianer). Þeir borða aldrei kjöt eða fisk, og því verður ekki neitað, að þeir þrífast eins vel og kjötætur, eru engu úthaldsminni til allra erfiðisstarfa, jafnvel úthaldsbetri, og hafa að jafnaði betri heilsu, eru kvilla-minni.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi