Dýravelferð


Við mannfólkið erum grimmustu dýr þessarar jarðar og teljum að við höfum leyfi til að drepa allt annað líf á Jörðinni án þess að spyrja kóng eða prest.  Með aukinni velmegun og vestrænni menningunni eykst þörfin fyrir kjöt  og þá helst sem ódýrast. En því miður verður þessi aukna þörf á dýrakjöti til þess að velferð dýranna minnkar. Lögmál markaðarins ræður oft í framleiðslu á dýrum þar sem einkunnarorðin eru meira, stærra, hagkvæmara….orð eins og  dýravelferð gleymast oft í nútíma framleiðslu á kjöti.
Ólafur R. Dýrmundsson landsráðunautur Bændasamtaka Íslands hefur orðað þessa þróun á aukinni kjötneyslu mjög vel, hann sagði í grein um dýravelferð: „Ódýr matur, m.a. á kostnaði velferðar búfjár, er vissulega ein af dýrkeyptustu blekkingum  20. aldar. Þeirri þróun þurfum við að breyta nú í byrjun 21. aldar, m.a. með því að upplýsa neytendur betur um framleiðsluhætti í landbúnaði og endurvekja tengsl á milli sveita og þéttbýlis“.

Mikið af kjötframleiðslu í dag er stór verksmiðjubúskapur sem á lítið skylt við landbúnaðarbúskap þar sem vel er hlúð að dýrunum.  Oft fá dýrin aldrei að kynnast náttúrulegum aðstæðum sínum eða komast undir bert loft. Hér eru dæmi úr algengri framleiðslu ýmissa kjöttegunda hér á landi:
Kjúklingaræktun – 70% af öllum kjúklingi í heiminum er alinn við verksmiðjubúskap en á Íslandi er nær eingöngu um verksmiðjubúskap að ræða. Þessir fuglar komast aldrei undir bert loft og vaxa upp í mjög litlum rýmum. Loftið í þessum vistarverum er oft mett af ammóníaki því úrgangur er ekki hreinsaður af gólfum. Þetta getur valdið skaða á augum, öndunarfærum og sára á fótum. Einnig eyðir stór hluti fluganna lífi sínu liggjandi og fá sjaldan að nýta fætur sínar að neinu ráði.
Svínaræktun – Í svínaræktun fá dýrin sjaldan að komast undir bert loft og búa í þröngum stíum allt sitt líf. Flest dýrin hreyfa sig mjög lítið og liggja hvað mest sérlega þegar þyngdin eykst. Nýlega kom fram í fréttum að grísir í svínaræktun væri geldir án deyfingar.
Nautgriparæktun – Nautgriparæktun er ekki mikil á Íslandi en með alþjóðavæðingu hamborgarastaða líkt og McDonalds og Burger King hefur þörfin fyrir ódýrt nautakjöt aukist mjög á heimsvísu. Til eru mörg verksmiðjunautabú í heiminum þar sem reynt er að fá sem mest kjöt af nautunum á sem stystum tíma. Nautin búa á afgritum svæðum án grass en eru alin á maís til að þyngja þau sem mest og einnig eru þau sprautuð með vaxtaraukandi efnum. Sem betur fer hefur nautgriparæktun á Íslandi ekki náð þessum lægðum.

En kjötframleiðsla á Íslandi er ekki bara grimmileg gagnvart dýrunum því sauðfjárræktun á Íslandi er líklega sú búgrein sem hugar hvað best að dýravelferðinni. Lömbin  fá að skottast um hæðir og hóla á sumrin áður en þau eru send til sláturnnar. Þetta ber dæmi um heilbrigða og skynsama kjötframleiðslu sem markaðsöflin hafa ekki náð að spilla.
Það er einnig ánægjulegt að sjá að sífellt eru að spretta upp býli á Íslandi sem bjóða uppá kjöt og dýraafurðir beint frá koti og/eða lífrænar. Dýrin frá þessum býlum fá  að upplifa meira sín náttúrulegu skilyrði undir beru lofti og meðferðin er almennt mun betri en í stóru verksmiðjunum. Við ættum alltaf að reyna að versla vörur frá þessum býlum, því þá erum við að stuðla að dýraveðferð og um leið verðum við betri manneskjur.

Í lokin má velta því fyrir sér hvort við eigum að vera að neyta alls þessa kjöts því velferð dýra mun minnka eftir því sem fleiri jarðarbúar neyta kjöts  – það er bara lögmál markaðarins. Við sem mannverur erum líka í raun mun betur í stakk búin til að melta og neyta jurtaafurða en dýraafurða. Einnig erum við að huga betur að jörðinni okkar ef við stuðlum frekar að jurtaræktun og neyslu en framleiðslu og neyslu dýraafurða. En það verður efni næsta pistils.

Heimildir:
www.dyravernd.is/odyr-matur-dyrkeypt-blekking.html
www.visir.is/neytendasamtokin-fordaema-slaema-medferd-a-dyrum/article/201087486359
www.visir.is/haenur-lokadar-i-buri-alla-aevi/article/2011110409355
www.visir.is/grisir-geltir-a-sarsaukafullan-hatt-an-deyfingar/article/2010876268500
www.peta.org/

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó