Forsíða Um NLFÍ Aðildarfélög Náttúrulækningafélag Reykjavíkur NLFR – lög

NLFR – lög

Höf. inga

LÖG NLFR
1. Nafn:

Félagið heitir Náttúrulækningafélag Reykjavíkur, skammstafað NLFR. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. Tilgangur:

a) Að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegum lifnaðarháttum.
b) Að kenna mönnum að varast orsakir sjúkdóma og útrýma þeim.
c) Að vinna að því, að þeir, sem veiklaðir eru orðnir eða sjúkir, geti átt kost á hjúkrun og lækningameðferð hér á landi með svipuðum aðgerðum og tíðkast hjá náttúrulæknum erlendis.

3. Hvernig tilgangi skal náð:

a) Með fræðslustarfsemi um náttúrulækningastefnuna og heilsubótaraðferðir hennar.
b) Með baráttu fyrir sölu óspilltra matvæla, bættri ræktun matjurta, söfnun berja og heilnæmra neyslujurta og leiðbeingum um meðferð þeirra og notkun.
c) Með því að stuðla að því að verslanir og veitingahús hafi á boðstólum sem hollastar vörur og veitingar í samræmi við náttúrulækningastefnuna.

4. Aðild og atkvæðisréttur:

Félagið er opið öllum sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Umsóknir um aðild að félaginu skulu berast til stjórnar NLFR, sem fjallar um þær og staðfestir.
Atkvæðisrétt og kjörgengi til trúnaðarstarfa hafa þeir einir, sem náð hafa 18. ára aldri, voru á félagsskrá um síðustu áramót og eru skuldlausir við félagið frá síðustu áramótum.
Allir félagsmenn skulu fá afhent félagsskírteini.
Stjórn félagsins er heimilt að strika mann út af félagsskrá ef hann skuldar tveggja ára gjöld eða meira til félagsins. Jafnframt er stjórninni heimilt að vísa þeim úr félaginu sem sannanlega vinna gegn lögum þess eða hagsmunum.

5. Heiðursfélagar:

Heiðursfélaga getur stjórnin kosið, sé hún sammála um það. Þeir eru ekki gjaldskyldir til félagsins, en hafa þó öll réttindi fullgildra félagsmanna.

6. Árgjald:

Gjaldskyldir eru allir félagsmenn, sbr. þó 5. grein, þó ekki þeir sem hafa náð 70 ára aldri. Árgjald félagsmanna ákveður aðalfundur, að fengnum tillögum fráfarandi stjórnar, er gjalddagi þeirra 15. júní. Ævifélagar halda áfram öllum réttindum fullgildra félagsmanna.

7. Trúnaðarstörf og kostningar til þeirra:

Stjórn félagsins skipa 5 menn og er kjörtímabil þeirra 3 ár. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi og er hagað þannig, að fyrsta árið eru kosnir 2 menn, hið næsta 2 menn og hið þriðja einn maður o.s.frv. Heimilt er að endurkjósa menn í stjórn. Kosning er óbundin og skrifleg, ef fleiri eru tilnefndir en kjósa á. Eftir hvern aðalfund skal stjórnin velja formann og skipta með sér verkum að öðru leyti. Þann fund boðar fráfarandi formaður ef hann situr áfram í stjórn, ella sá stjórnarmaður sem elstur er. Í varastjórn eru kosnir þrír menn árlega. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðendur og einn til vara. Aðalfundur kýs einnig fulltrúa NLFR á landsþing NLFÍ sem haldið er annað hvert ár.
Lagagrein þessari verður ekki breytt nema á tveimur lögmætum aðalfundum í röð.

8. Umboð stjórnar Nefndir:

Stjórn félagsins stjórnar öllum málefnum þess á milli funda. Þó má stjórnin ekki fyrir hönd félagsins kaupa eignir, ganga í ábyrgð né skuldbinda félagið á annan hátt, nema lögmætur félags eða aðalfundur hafi áður samþykkt það, enda skal slíks getið í fundarboði. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir sér til aðstoðar við einstök félagsmál ef þurfa þykir.
Aðalfundir geta og skipað nefndir, bæði til starfa á fundinum sjálfum og á milli aðalfunda.

9. Stjórnarfundir:

Formaður kallar saman stjórnarfund, en stjórnin boðar til félagsfunda. Stjórnarfundur er lögmætur ef formaður eða varaformaður og tveir meðstjórnendur eru mættir á fundi. Á stjórnarfundinum ræður einfaldur meirihluti, nema þar sem annað er tekið fram. Gerðabækur skal stjórnin halda yfir störf stjórnar- og félagsfunda.
Æski einn stjórnarmanna þess eða fleiri skal kalla saman stjórnarfund innan viku.

10. Reikningsár:

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

11. Félagsfundir:

Stjórnin kallar saman félagsfund svo oft sem þurfa þykir. Fundi skal boða með viðeigandi auglýsingu í a.m.k. einum fjölmiðli með þriggja sólarhringa fyrirvara að lágmarki. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Æski einn stjórnarmanna þess skriflega og/eða 15 félagsmenn eða fleiri, skal kalla saman félagsfund innan tveggja vikna. Þeim sem óskað hafa eftir viðkomandi félagsfundi skal tilkynnt um hann sérstaklega.

12. Aðalfundur:

Aðalfund skal halda í mars ár hvert. Er hann ályktunarfær sé til hans boðað með viðeigandi auglýsingu í a.m.k. dagblaði, útvarpi með a.m.k. viku fyrirvara og í fréttabréfi sem sent skal öllum félagsmönnum með viku fyrirvara að lágmarki. Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram skýrslu um störf félagsins á næstliðnu ári og endurskoðaða reikninga þess.
Lagagrein þessari verður ekki breytt nema með tveimur lögmætum aðalfundum í röð.

13. Lagabreytingar:

Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi, sjá þó 7. grein og 12. grein, enda verði breytingartillögurnar samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða og þess getið í fundarboði, að tillaga um lagabreytingar muni liggja fyrir fundinum. Tilgangi félagsins skv. 2. grein má þó aldrei breyta. Auðir seðlar teljast greidd atkvæði en ógildir seðlar ekki.

14. Endalok félagsins:

Félagið má aðeins leysa upp, að tveir þriðju fundarmanna samþykki það á lögmætum aðalfundi enda hafi tillaga um það verið birt í fundarboði. Skulu eignir félagsins þá renna til Náttúrulækningafélags Íslands.
———-
Samkv. samþ.aðalfundar 11. apríl 2002

Þessi vefsíða notar vafrakökur (cookies) til að bæta upplifun notenda. Leyfa vafrakökur Lesa meira