Innihald þessa pistils fjallar um þann mikla tíma sem við eyðum fyrir framan tölvuskjái og sjónvarp nú á dögum.
Við erum að drukkna í framboði á afþreyingarefni og tölvutækjum og þurfum virkilega að fara að hugsa okkar hvernig við ætlum að umgagnast alla þessa tækni. Því ef ekki mun þessi öra tækniþróun gleypa okkur sem félagsverur með skapandi hugsun.
Framboðið á afþreyingarefni í sjónvarpi og tölvum er geigvænlegt í dag. Má þar t.d. nefna að á nánast hverju einasta heimili á Íslandi eru í boði hundruðir sjónvarpsstöðva sem keyra allan sólarhringinn, vídeoleigur í sjónvarpinu, Netflix, o.fl. Í tölvum heimilisins má einnig nálast nánast hvað sem hugurinn girnist í gegnum Netið.
Þessi tækniþróun hefur valdið því að mörg ungabörn sem eru varla farin að tala, kunna á nýjustu græjur heimilinsins eins og Ipad og snjallsíma.
Það hafa orðið ótrúlegar tækniframfarir á undanförum áratugum. Fyrir um þremur áratugum þegar ég var að alast upp man ég eftir að hafa horft á vikulegan þýskan þátt um rannsóknarlögreglumanninn Derrick og einnig sápuóperu um líf og ástir olíufjölskyldunnar í þættinum Dallas.
Þótt ótrúlegt megi virðast þá hlakkaði ég alltaf til að horfa á þessa þætti. Þetta var sjónvarpsefni þessa tíma og “toppurinn” á þessu sjónvarpsframboði voru svo sjónvarpslausir fimmtudagar!
Leikjatölvur voru að koma til sögunnar á unglingsárum mínum og þá tók a.m.k. fimm mínútur að láta Atari leikjatölvuna keyra upp leikinn. Líf mitt gekk ekki útá tölvur og sjónvarp, ég kunni að leika mér úti með vinum mínum. Í dag þakka ég fyrir að hafa alist upp við sjónvarpslausa fimmtudag, sérstaklega þegar ég sé hvað tölvutæknin er að gera ungu kynslóðinni nú til dags.
Ég held að fáir nútímamenn geti ímyndað sér það að kveikja ekki á sjónvarpinu eða fara ekki á Netið í heilan dag. Við erum með símann nettengdan hvar sem er. Fólk er hætt að hittast án þess að vera endalaust á samskiptamiðlum og Netinu. Það er t.d. orðið mjög sorglegt að hitta vini síni í dag, því hver og einn er í símanum án þess að eiga samskipti við raunverulega vini síni, allir eru á Netinu að tengjast tölvuvinum sínum.
Við lifum sannarlega á tækniöld og þeir sem vinna í tækni- og tölvugeiranum eru á fullu að finna upp leiðir til að gera líf okkar “auðveldara” og “þægilegra” en um leið mun ómanneskjulegra! Tæknin hugsar ekki um djúpar mannlegar tilfinningar, þrár og þarfir. Viljum við virkilega líf sem er allt tölvutengt en algjörlega ómannlegt? Við þurfum að læra að nota tækni framtíðarinnar án þess að tæknin taki yfir líf okkar og geri okkur að tilfinningalausum og sjálfvirkum tölvuverum.
Því það er vissulega margt ágætt við tæknina t.d. víkkar hún sjóndeildarhring okkar, auðveldar póstsamskipti og dregur úr eyðingu regnskóga en á móti verðum við að læra að láta tæknina ekki stjórna lífi okkar sem mannverur.
Ein leið til þess að við tökum við stjórninni frá tölvunum væri að taka aftur upp sjónvarpslausa fimmtudaga, sem yrði reyndar kallaður tölvulaus fimmtudagur í dag. Einu sinni í viku ættum við að slökkva á tölvum, snjallsímum og sjónvarpi og eiga góða stund með okkar nánustu eða bara stund með okkur sjálfum. Það eru mjög margir sem munu eiga mjög erfitt með þetta, því tæknin er orðin svo stór hluti af lífi okkar.
Við erum komin frá náttúrunni og sameinumst henni aftur þegar við kveðjum þennan heim og verðum að mold. Lifum því sem mannverur í náttúrunni sem við fæddumst í en ekki sem tölvuverur í tölvuheimi.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is