Lúsmý

Lúsmýveiðitímabilið er hafið.  Þá er ég nú satt best að segja ekki að meina að fólk flykkist út með flugnaspaðana og reyni að koma þessum sérlega hvimleiðu kvikindum fyrir kattarnef.  Ónei, hér er mannfólkið í hlutverki bráðarinnar, hins saklausa fórnarlambs sem á sér einskis ills von, liggur steinsofandi í rúmi sínu um sumarbjarta júnínóttina, hrýtur kannski mjúklega, kúrir í nýstraujuðum rúmfötunum sem ilma af útilykt af snúrunum  og dreymir fullkomlega óraunhæfa drauma um sólríka  sumardaga með hitastigi sem er talið í tveggja stafa tölum. Því miður eru ákaflega fáir berdreymnir á sviði veðurfræðinnar.  Inn um opinn gluggann laumast óvætturin, blóðþyrst, einbeitt í eftirför sinni, staðráðin að ná sér í magafylli af mannablóði, flýgur rakleiðis að grunlausri bráðinni, leitar uppi hlýjan og notalegan stað til lendingar og án frekari málalenginga stingur flugbeittum gaddi sínum í gegnum nakta húðina og sefjar þorsta sinn. Stundum nær þessi smásæja ófreskja að stinga sama fórnarlambið mörgum sinnum og á mismunandi stöðum, oft með skelfilegum afleiðingum. Eftir átveisluna hverfur óhræsið á brott, flýgur skrykkjótt út um gluggann aftur og liggur sennilega á meltunni fram að næsta hlaðborði. 

Nú gæti einhver haldið að þetta væri upphafið að sérlega spennandi vampíruþáttum á netflixinu en því miður er þetta nú bara frekar hversdagsleg lýsing á ósköp venjulegum vikudegi í sunnlenskri sveit. Lúsmýið er komið á kreik.

Ég viðurkenni fúslega að ég hef aðeins kviðið fyrir þessum degi, að vakna upp eftir svona heimsókn að næturlagi enda hef ég frekar erfiða reynslu að baki í þessum efnum. Fyrir ári síðan varð ég nefnilega illilega fyrir barðinu á staðbundnum flokki lúsmýs sem náði í kjölfarið, eftir dágóða forðasöfnun til framtíðar, að fjölga sér verulega og er ættboginn nú orðinn allþokkalegur og jafnvel farinn að leggja undir sig nærsveitir. Þrátt fyrir óhefta notkun á alls konar flugnaspreyi og heilu vörulínunum af öllu mögulegu með lavender ilmi, sérstöku glugganeti sem á að halda flugunum úti og viftu sem slær út allar vindvélarnar í júróvisjón samanlagt náði heill herskari herskárra lúsmýja að útfæra leiftursnögga og stórsnjalla tangarsókn og saug úr mér örugglega tvo til þrjá lítra af ljúffengu, dísætu og næringarríku blóði. Ég var varla nema hálf manneskja eftir þessa árás en þó bættu bólgurnar aðeins upp rúmmálsmissinn vegna blóðtapsins.  Stungurnar voru á hverjum einsta fermillimetra húðar sem náði að standa undan sænginni þá nóttina, á fótum, höndum og það sem verst var, út um allt andlit; kringum augun, undir nefinu, í munnviki og svo einnig á hefðbundnari vampírustöðum, hér og þar á hálsinum. Nú vill svo til að ég hef einstaka sinnum verið svo heppin að fá að taka þátt í sjónvarpsverkefnum og þá skiptir töluverðu máli fyrir sjálfstraustið að maður sýni sitt skársta andlit og ég játa það alveg að andlitið á mér með lúsmýslúkkinu var ekki upp á neina fiska.  Á sama tíma og ég var étin nánast upp til agna lá eiginmaðurinn algerlega ósnertur við hlið mér, ekki eitt einasta bit á skrokknum, stráheill að morgni, hefði hæglega getað tekið að sér sjónvarpsverkefni án þess að þurfa að fá göldrótta sminku til að redda sér sæmilega mennsku andliti fyrir upptökur.

Mér fannst þetta manngreinaálit dularfullt svo ekki sé fastar að orði kveðið og ákvað að gera ítarlega rannsókn á ástandi nágrannahjóna okkar í nokkrum bústöðum í grennd. Þar notaðist ég við allviðurkennda rannsóknaraðferð sem byggir á ítarlegum viðtölum við hlutaðeigandi aðila. Eftir örfáa daga lágu niðurstöður fyrir og voru þær verulega sláandi. Í öllum tilfellum var það svo að eiginkonurnar höfðu látið illilega á sjá eftir lúsmýið á meðan eiginmennirnir, rétt eins og minn eigin, sluppu óskaddaðir og virtust ekki einu sinni hafa verið staddir í sama landshluta og eiginkonur þeirra, þótt þau hafi sofið hlið við hlið í sama rúmi, svo mjög höfðu þeir sloppið við lúsmýið. Ein hafði á orði að sinn eiginmaður hefði jafnvel orðið myndarlegri eftir eina nótt með lúsmý í herberginu.  Kannski var það bara samanburðurinn við eiginkonuna sem varð mun hagstæðari eftir þessa nótt en ég fer nú ekki með það lengra en á þessa blaðsíðu, sú kona var jafnvel enn verr á sig komin en ég.

Niðurstöður hávísindalegrar rannsóknar minnar hafa valdið mér miklum heilabrotum.  Hvað er það í þessu umhverfi sem gerir það að verkum að konur fá verri útreið en karlmenn? Er það sú staðreynd að landið er í eigu iðnaðarmanna þar sem meirihlutinn er karlkyns? Eru þeir með þykkari skráp? Getur verið að lúsmýið sé meira upp á kvenhöndina eða liggur kvenfólkið einfaldlega verr við höggi? Er þetta enn eitt herbragðið gegn konum? Spyr sú sem ekki veit og er eiginlega slétt sama um svarið, svo framarlega sem ég slepp við frekari átveislur.

Guðríður Helgadóttir (eða leifarnar af henni)

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur

1 Ummæli

Árni Svavarsson 19. ágúst, 2021 - 12:42

Gurry… hvar eru ráðleggingarnar þínar til að verjast lúsmýinu… eða var þetta bara svona æfing af þinni hálfu að gerast rithöfundur á léttrómantíska sviðinu ? Að mínu mati þá er þörfin að finna lausn á þessum vágesti mjög mikilvæg og ættu skrif þin að fjalla um það, ekki satt. Já… þetta er ekkert fyndið… bara lífsgæða skerðing.

Comments are closed.

Add Comment