Mánuður meistaranna


Október er nú orðinn meistaramánuðurinn mikli ár hvert. Þvílík snilldarhugmynd. Á meistaramanudur.is má sjá um hvað málið snýst, það er setja sér markmið og búa til góðar venjur, að vakna fyrr, neyta ekki áfengis og hreyfa sig, ásamt því að borða og njóta lífsins betur en aðra daga. Þetta snýst um að vera meistari eigin lífs. Meistaramánuður er góð innspýting fyrir þá sem vilja breyta lífsstíl sínum. Það hefur verið sýnt fram á það að ef þú gerir eitthvað í 21 dag samfleytt þá er mjög líklegt að þú haldir því áfram. Atferlið verður að venju. Snilldin við meistaramánuð er líka sú að það er auðveldara að koma sér af stað og halda settu marki þegar að svo margir í samfélaginu eru að taka saman þátt í því að ná markmiðum sínum. Þátttakendum fer fjölgandi með árunum og til dæmis eru flestir í kringum mig með eitthvað markmið. Því fleiri sem taka þátt því ólíklegra er að einhver sé að böggast í þér fyrir að fá þér ekki köku í boðinu eða að fara í ræktina í stað þess að skreppa í bíó. Mánuður sem felst í því að allir setja sér markmið um að bæta sig á einhvern hátt hvetur okkur áfram. Við erum lið og við finnum til samkenndar.

Ég hef verið að hugsa hversu sniðugt það væri að fjölga meistaramánuðum, hafa til dæmis annan hvern mánuð meistaramánuð til að byrja með og síðan alla mánuði. Það myndi þó kannski ekki vera jafn mikil stemmning fyrir þessu í samfélaginu þá. Spurningin er hvort að hver og einn geti þá ekki bara byrjað á því að taka þátt í meistaramánuði í október og haldið síðan áfram sjálfur með meistaramánuð í nóvember, desember og á nýju ári og svo koll af kolli. Þetta er ekkert flókið. Einfalt val um að fylgja eftir því markmiði sem að maður hefur valið sér á hverjum degi er það sem skiptir mestu máli. Sama hvaða mánuður er. Litlir hlutir eins og að hengja mynd af einhverju sem þig langar að afreka á ísskápinn, skrifa niður ákveðin orð eða setningar á blað og hafa á náttborðinu eða fara með staðhæfingar kvölds og morgna, munu skila þér langt.

Mín markmið í tengslum við meistaramánuð snúast um heilbrigðan lífsstíl, hollt mataræði og hreyfingu. Ég hef sett mér fullt af markmiðum í gegnum tíðina í tengslum við íþróttaferil minn þannig að ég er vön slíkri markmiðasetningu. Þegar að ég sleit krossband í hné árið 2007, sem hafði mikil áhrif á minn íþróttaferil, ákvað ég að leita allra leiða til þess að laga vandann sem ég stóð frammi fyrir. Markmiðasetning var eitt af því fyrsta sem ég tileinkaði mér. Heimspekin á bak við markmiðasetningu heillaði mig og ég fór að líta enn betur inn á við. Ég skrifaði niður fullt af markmiðum og mér fannst heill heimur af möguleikum opnast fyrir mér í kjölfarið. Ásamt því að skrifa niður markmiðin mín, fór ég með staðhæfingar oft á dag og var með miða út um allt hús með jákvæðum fullyrðingum. Allt þetta hjálpaði mér á leið minni í átt að bata. Ég tel að ég hefði aldrei náð þeim árangri sem ég náði nema af því að ég skrifaði niður markmiðin mín og var einbeitt og ákveðin í því að ná þeim.

Mitt aðalmarkmið í lífinu hefur lengi verið að lifa heilbrigðum lífsstíl og gera það eins vel og ég get. Ég veit að heilbrigður lífsstíll hefur ekki aðeins þau áhrif að ónæmiskerfið mitt er betra en ella, meiri líkur eru á að ég muni viðhalda heilsu minni og mér líður betur, heldur hef ég meiri möguleika á að jafna mig ef veikindi banka á dyrnar. Ég óska þess oft að fleiri myndu velja náttúrulegar leiðir eins og bætt mataræði og hreyfingu í átt að heilsu. Náttúrulegar leiðir hafa reynst svo mörgum svo ótrúlega vel, bæði við að snúa við veikindum en einnig að koma í veg fyrir veikindi. Nú til dags er of algengt að fólk lendi í vítahring, til dæmis veikinda eða einhvers annars lífsmynsturs sem það vill ekki lifa í, í stað þess að breyta atferli sínu til hins betra. Það má í svo mörgum tilfellum skoða hvort að maður geti einhvernveginn breytt því sem að maður hefur verið að gera og bætt það. Til dæmis ef mér líður illa, er þreytt, of þung og alltaf illt í bakinu, væri þá ekki sniðugt að byrja á því að laga mataræðið og styrkja líkamann með hreyfingu og athuga hvort að líðanin breytist? Svarið er augljóst. Auðvitað er þetta besta leiðin að heilbrigði. Við þurfum að taka höndum saman og koma inn í samfélagsvitundina að fólk viðhaldi heilbrigði sínu og komi í veg fyrir veikindi með heilbrigðum lífsstíl. Meistaramánuður getur verið upphafið að einhverri miklu stærri heilbrigðisbylgju. Tökum þátt í meistaramánuði og setjum okkur skemmtileg og drífandi markmið sem gera okkur að betri manneskjum. 

Hér eru nokkrar leiðir til þess að halda markmiðum þínum:

1)  Skrifaðu niður markmiðin þín og hafðu þau nákvæm. Betra er að skrifa niður „hitta vinina einu sinni í viku“ heldur en „bæta félagslífið“.

2)  Vertu stöðugt að skoða markmiðin þín. Ef markmiðin eru stöðugt í huganum þá er líklegra að þú haldir þig við þau.

3)  Segðu öðrum frá markmiðum þínum.

4)  Hugsaðu stórt ! Kannski þarftu á því að halda að gera miklar breytingar á lífi þínu; fara í ævintýraferð, byrja í nýju starfi eða eignast nýja vini.

5)  Hugsaðu í skrefum ! Ef þú setur þér markmið um að taka heimilið í gegn þá þarftu að byrja einhversstaðar. Að taka til í einum skáp er byrjunin.

6)  Haltu þig við markmiðið þitt á hverjum degi, því það er oft auðveldara að gera eitthvað á hverjum degi heldur en þriðja hvern dag.

7)  Hættu við markmiðið ! En bara ef þú nærð aldrei að framkvæma markmiðið þitt. Stundum setur maður sér bara röng markmið, þá þarf maður að stíga skref aftur á bak og hugsa sinn gang.

Skrifað af Rögnu Ingólfs, ragnaingolfs@gmail.com

Related posts

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Grasaferð hjá Heilsustofnun